Leodegarius

Einn af mörgum aðfluttum forfeðrum Íslendinga gekk undir nafninu Leodegarius. Ekki er vitað hvort heldur hann var af enskum eða þýskum ættum en hann er talinn fæddur um 1590 (islendingabok.is). Leodegarius átti íslenska konu og eignaðist tvær dætur með henni. Þær hétu Guðrún og Bergþóra en nafn móðurinnar er týnt og tröllum gefið. Þegar manntal var tekið á Íslandi árið 1703 er Guðrúnar dóttur Leodegariusar getið sem ómaga í Hrafnagilshreppi í Eyjafirði.

Við nafn hennar stendur: „meinast æði gömul“. Hún hefur þá hugsanlega verið komin eitthvað yfir sjötugt. Einnig er tekið fram að hún hafi verið „kölluð Lekadóttir“. Nafn Leodegariusar hefur þannig á 17. öld þótt það framandi að að íslenskum sið var búin til íslensk útgáfa af nafninu: Leki. Litlar sögur fara af Leka. Einhverjir virðast halda að hann hafi verið skipbrotsmaður og hann er einnig sagður hafa verið bóndi í Eyjafirði og búið í nágrenni Akureyrar (Ættir Austur-Húnvetninga 1999, 3. bindi, bls. 1090). „Var hann almennt uppnefndur Leki, en dætur hans Lekadætur, einkum þó Gunna.“ Um Guðrúnu var sagt að hún væri alræmd gleðikona (islendingabok.is). Um merkingu þess að vera gleðikona eða gleðimaður má annars fræðast í fróðlegri grein eftir Ástu Svavarsdóttur (Baráttan um tungumálið: „Gleðikonur, gleðimenn og annað fólk.“ Konan kemur við sögu. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Reykjavík 2016, bls. 151-153). Í þessu tilfelli þarf það ekki að merkja annað en að viðkomandi hafi verið „glaðvær eða fjörug kona, kona sem er gefin fyrir gleðskap.“

Nafns Leodegariusar er ekki getið í ritinu Nöfn Íslendinga eftir Guðrúnu Kvaran, ekki heldur Leka, enda skilgreiningaratriði hvort nafnið sé íslenskt. Nafn þetta virðist alveg einstætt og engin dæmi finnast um annan mann sem heitið hefur Leki eða Leodegarius hér á landi. Nafnið er þó ekkert út í bláinn heldur vísar í ákveðna átt.

Suður í Búrgúndí var uppi á 7. öld e.Kr. maður sem hét á máli heimamanna Léger en var kallaður Leodegarius upp á latínu. Léger þessi var biskup í Autun í Frakklandi, dálítið fyrir norðan Lyon. Hann vann sér það til frægðar á sinni tíð að verða einkakennari Childeriks II Frankakonungs sem þá var aðeins barn að aldri. Og eins og gengur um barnkónga þá var hann myrtur síðar, rúmlega tvítugur. Leodegarius lagði á flótta en var tekinn höndum fáum árum síðar. Hann var sakaður um að hafa lagt á ráðin um konungsmorðið, augun voru stungin úr höfði honum (með nafri) og augnbotnarnir brenndir. Þá var tungan einnig skorin. Fáum árum síðar var hann svo myrtur úti í skógi. Um einni öld síðar voru jarðneskar leifar Leodegariusar grafnar upp og um hann skrifuð píslarvættissaga og hann gerður að dýrlingi.